Skırsla um heilbrigğisskoğun keppnishesta á LM 2011

Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Mast hefur í samvinnu við LH þróað fyrirkomulag heilbrigðisskoðana á keppnishestum sem byggir á 6. gr. laga nr.15/1994 um dýravernd: „Einungis má nota í keppni dýr sem eru heilbrigð og vel þjálfuð“ Fyrirkomulag þetta hefur verið með svipuðu sniði á landsmótum, fjórðungsmótum og Íslandsmótum frá 2006 en í einfaldara formi á árunum 2002 - 2006.

Klár í keppni

Öll hross sem keppa í A fl. gæðinga, B fl. gæðinga, ungmennaflokki, tölti og skeiði á LM 2011 skulu undirgangast dýralæknisskoðun þar sem metið er hvort þau séu hæf til keppni. Keppendur í öðrum greinum geta að eigin ósk mætt með hross sín í skoðun.

Skoðunin skal fara fram 2 - 24 tímum fyrir hverja keppnisgrein í undankeppni. Fyrir milliriðla og úrslit fer skoðunin fram einum til tveimur tímum fyrir keppni.

Ábyrgðardýralæknir mótsins hefur yfirumsjón með þessum skoðunum og öðru sem snertir dýravernd á mótinu. Hann skal ævinlega kallaður til ef vafi leikur á hvort hestur sé hæfur til keppni og veita dómurum ráðgjöf eftir þörfum.

Heilbrigðisskoðunin felur í sér eftirfarandi atriði:

Skoðun á almennu ástandi (holdafari, eitlum, öndun, auk líkamshita og hjartahljóða ef ástæða er til)

Fætur þreifaðir og heltiskoðun (hreyfingar á feti og brokki á hörðu undirlagi)

Skoðun á munni (fremsti hluti munnsins án deyfingar)

Áverkarnir eru flokkaðir eftir alvarleika í þrjú stig:

Fyrsta stigs áverkar: Athugasemd skráð.

Lítil og/eða grunn sár í slímhúð munnsins og munnvikum. Þykknun/bjúgmyndun í slímhúð yfir kjálkabeini á tannlausa bilinu. Væg fylling í kjúkuliðum eða sinaskeiðum. Aðrar vægar bólgur.

Annars stigs áverkar: Munnleg viðvörun, hugsanlega skilyrt (t.d. að skipt sé um beisli eða járningu breytt).

Sár sem ná í gegnum slímhúð í munni og munnvik eða umfangsmikil grynnri sár. Beinhimnubólga og/eða lítil sár í slímhúð yfir kjálkabeini á tannlausa bilinu. Grunn ágrip. Áberandi fyllingar í kjúkuliðum eða sinaskeiðum. Vægar bólgur í sinum án helti.

Þriðja stigs áverkar: Hestur metinn óhæfur til keppni og fær ekki að fara inn á völlinn.

Horaður (undir 2,5 í holdastigun), hiti, óeðlileg öndun og hjartahljóð, bólgnir eitlar, áberandi hósti.
Helti, bráð bólga í sinum og liðum, dýpri sár, sýkt sár, aumir hófar
Umfangsmikil, djúp sár í munni. Sýkt sár, mjög aum sár. Umfangsmikil og/eða mjög aum beinhimnubólga. 
Annað sem að mati dýralæknis mótsins gerir hross óhæft til keppni

Ákvörðun um að hestur sé „óhæfur til keppni“ er tekin af ábyrgðardýralækni mótsins. Hestur sem hefur verið dæmdur „óhæfur til keppni“ í einni grein má ekki keppa í neinu öðru né koma fram á nokkurri sýningu á sama móti.

Dýralæknarnir í Skagafirði; Guðrún Margrét Sigurðardóttir, Höskuldur Jensson og Stefán Friðriksson unnu við eftirlitið á LM 2011 ásamt Sigríði Björnsdóttur dýralækni hrossasjúkdóma sem var ábyrgðardýralæknir mótsins. Ármann Gunnarsson var fulltrúi héraðsdýralæknis.

Niðurstöður

Alls voru 335 keppnishross skoðuð í keppnisgreinum fullorðinna og ungmenna. Knapar mættu með hestana á stallmúl fyrir hverja keppni (forkeppni, milliriðla og úrslit) en valdir hópar voru einnig skoðaðir að keppni lokinni.

Almennt ástand
Engar athugasemdir gerðar

Munnur
Fjöldi hrossa með áverka. Alvarleiki (1,2,3):

Tafla 1

Fætur
Fjöldi hrossa með áverka:

Tafla 2

Áverkaskoðun eftir forkeppi í B-fl.
Eitt vægt ágrip.
Enginn hestur með blóð í munni.

Áverkaskoðun eftir milliriðla í A-fl.
8 ágrip, þar af 7 á olnboga
8/29 = 28%
7/29 = 24%
Enginn hestur með blóð í munni.

Áverkaskoðun eftir skeiðgreinar
Eitt vægt ágrip.
Enginn hestur með blóð í munni.

Umræður

Skoðun á munni keppnishesta var ítarlegri á LM 2011 en áður að því leyti að nú var kjálkabeinið í neðri kjálka þreifað á tannlausa bilinu. Skoðunin leiddi í ljós að þar var að finna bólgur og sár hjá 15% hrossanna (alls 51 hrossi, þar af annars stigs áverkar hjá 17 hrossum og þriðja stigs hjá einu). Þessir áverkar reyndust vera hrein viðbót við áverka á mjúkvef (slímhúð innan á kinnum og í munnvikum) sem var eins og á fyrri mótum að finna í um fjórðungi hrossanna (91 hross).

Áverkar á kjálkabeini voru allt frá þykknun og bjúgmyndun í slímhúð yfir í umtalsverða beinhimnubólgu og opin sár. Knapanir sem áttu í hlut höfðu almennt enga hugmynd um áverkana. Í viðtölum kom fram að þeir höfðu í öllum tilfellum notað stangamél með tunguboga (einjárnung eða brotin mél) við þjálfun hrossanna og/eða keppni. Ekki var þó í öllum tilfellum fyrirhugað var að nota þann búnað á LM 2011.

Kjálkabeinið er umlukið beinhimnu sem er afar tilfinningarík og þar ofan á er aðeins þunn slímhúð. Þetta svæði er því mjög viðkvæmt fyrir þrýstingi. Mikill og/eða viðvarandi þrýstingur leiðir fljótt til bólgu og særinda. Hætta er á að beinhnútar myndist á kjálkabeininu og þar með varanlegur skaði. Í versta falli geta særindi á þessu svæði opnað leið fyrir beinsýkingu.  Út frá sjónarmiði dýravelferðar er því afar brýnt að fyrirbyggja áverka af þessu tagi.

 

Notkun á mélum með tunguboga og þá sérstaklega stangamélum sem þannig eru gerð, setur auðveldlega mikinn þrýsting á þetta svæði. Tungan sem alla jafna dempar þrýstinginn nær þá ekki að virka sem slík og þrýstingurinn fer beint niður á beinið. 
Notkun méla með tunguboga er því sérstaklega vandmeðfarin. Mikilvægast er að þeir sem nota slíkan búnað geri sér grein fyrir líffræðilegum áhrifum hans og að einungis ætti að nota hann upp í mjög vel þjálfuð og sjálfberandi hross en alls ekki til að leysa önnur vandamál eða stytta sér leið í þjálfun hrossa.

Særindi í kinnum og munnvikum einkenndust sem fyrr af þrýstingssárum. Flest voru tiltölulega lítil og/eða grunn (fyrsta stigs) en þó voru 29 hross með annars stigs áverka á þessu svæði. Þrýstingssár verða þar sem slímhúðin lendir í klemmu á milli méla og/eða múls annars vegar og tanna hins vegar. Slíkur þrýstingur á afmarkað svæði í lengri tíma eða síendurtekið, dregur úr blóðflæði og leiðir til staðbundins skaða. Þykknun á slímhúðinni þar í kring endurspeglaði oftast að um langvinnan þrýsting hafði verið að ræða. Mjög lítið var um nýleg særindi og ekki varð vart við blóð í munni eftir keppni í neinu tilfelli.

Ellefu hross voru með áverka bæði í kinnum og á beini á tannlausa bilinu.

Knapar hrossa sem greindust með særindi í munni þurfa að endurskoða hversu mikinn og hversu langvarandi þrýsting þeir setja á munninn og leita allra leiða til að forðast að þrýstingurinn lendi á hörðu undirlagi s.s. tönnum eða beini og að hann lendi alltaf á sama svæði. Þar getur val á búnaði skipt miklu máli. Þar sem áverkar eru umtalsverðir er full ástæða til nákvæmari skoðunar á munninum til að greina hugsanlegan undirliggjandi vanda.

Minna bar á bólgnum fótum en oft áður, einkum í úrslitum. Tveir hestar fengu ekki til að hefja keppni vegna helti en 10 til viðbótar voru til sérstakrar skoðunar vegna athugasemda við hreyfingar.


Ágrip voru ekki algeng að undanskildum ágripum á olnboga sem voru áberandi eftir keppni í A-flokki gæðinga. Skoðun eftir milliriðil í þeim keppnisflokki leiddi í ljós olnbogaágrip hjá 7 af 29 hestum eða 24% sem verður að teljast áhyggjuefni. Flest ágripanna voru tiltölulega væg og ekki varð vart við eymsli eða sársauka í tengslum við þau. Í einu tilfelli var áframhaldandi keppni skilyrt breytingu á járningu.


Samspil margra þátta liggur að baki þessara ágripa. Lengd hófanna er sá áhrifaþáttur sem helst er hægt að breyta enda hefur hún mikil áhrif á fótahreyfingar hestsins sem verða einfaldlega of miklar á stinnu undirlaginu. Hófurinn nær þá að höggva í húðina yfir olnbogabeininu. Besta leiðin til að minnka hættuna á að þetta gerist er að stytta hófana og er það alla jafna gert að skilyrði fyrir áframhaldandi þátttöku. Aðrar leiðir geta þó verið mögulegar, s.s að stytta skeifur og sleppa hófhlífum.


Ljóst má vera að kröfur til keppnishrossa eru mjög miklar og oft á mörkunum að hestarnir nái að standa undir þeim án þess að verða fyrir líkamlegu tjóni. Þetta ber að hafa í huga við áframhaldandi þróun keppnisgreina fyrir íslenska hestinn.


Hólum, 08.11.2011,


Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Mast og ábyrgðardýralæknir mótsins

Hér má nálgast skýrsluna á .pdf-sniði.

Þriðja stigs ávarkar: Hestur metinn óhæfur til keppni og fær ekki að fara inn á völlinn.

Horaður (undir 2,5 í holdastigun), hiti, óeðlileg öndun og hjartahljóð, bólgnir eitlar, áberandi hósti.

Helti, bráð bólga í sinum og liðum, dýpri sár, sýkt sár, aumir hófar

Umfangsmikil, djúp sár í munni. Sýkt sár, mjög aum sár. Umfangsmikil og/eða mjög aum beinhimnubólga.  [HG1] 

Annað sem að mati dýralæknis mótsins gerir hross óhæft til keppni


 [HG1]Má sleppa þessu í þýðingunni?