Vandamál í munni

 Algeng vandamál í munni

Áverkar tengdir mélanotkun

Áverka í munni má í flestum tilfellum rekja til þrýstings frá beislisbúnaði. Ætla má að þeir valdi sársauka og ógni þar með velferð hrossa.

 

Þrýstingssár innan á munnvikum og kinnum

 

Væg þrýstingssár í innanverðum munnvikum.  Of löng mél auka hættuna á þrýstingssárum í munnvikum og kinnum.

Á móts við fremstu jaxla er hætt við að mjúki vefurinn innan á kinninni lendi í klemmu á milli beislisbúnaðar og tanna.  Stöðugur og/eða endurtekninn þrýstingur frá mélum og nasamúl á sama svæðið leiðir til þess að blóðflæði minnkar og þrýstingssár taka að myndast.  Þessi sár ná gjarnan djúpt inn í mjúkvefinn og eru lengi að gróa. Alvarleg þrýstingssár í munnvikum geta verið nokkra mánuði að gróa að fullu.

 

 

Alvarleg þrýstingssár á móts við fremsta jaxl. Áverkar sem þessir voru áður fyrr taldir orsakast af skörpum tannbroddum en nú er ljóst að um krónísk þrýstingssár er að ræða. Slík sár einkennast m.a. af bandvefsmyndum (ljós vefur) í jöðrunum.

Til að fyrirbyggja særindi í munni af völdum beislisbúnaðar er mikilvægt að sjá til þess að þrýstingurinn lendi ekki alltaf á sama stað. Þetta er hægt að gera með því að nota fjölbreyttar þjálfunaraðferðir og skipta oft um beislisbúnað. Mikilvægt er að mélin passi hestinum og haldist stöðug á tannlausa bilinu. Einkum er hætt við að of löng mél dragist upp á móts við tennurnar sem leiðir til þess að slímhúðin klemmist á milli málms og tanna.

 

Áverkar á kjálkabeini

 

 Dæmi um alvarlega áverka á kjálkabeini.

Kjálkabeinið á tannlausa bilinu er umlukið beinhimnu sem er einn tilfinningaríkasti vefur líkamans. Þar yfir er einungis þunn slímhúð sem hefur engar forsendur til að taka við þrýstingi frá mélum. Slíkur þrýstingur mun fyrr eða síðar valda þar sársaukafullum áverkum s.s. þrýstingssárum og bólgum í slímhúð en einnig er hætta á beinhimnubólgu og skaða á sjálfu beininu. Mél með tunguboga auka mjög hættuna á áverkum á kjálkabeini þar sem þau hindra tunguna í að lyfta mélunum og verja kjálkabeinið fyrir þrýstingi.

 

Tannskemmdir af völdum méla

 

Óeðligegur slitflötur á fremsta jaxli (löng ör). Úlfstönn (stutt ör). Tannskemmd eftir glerungseyðingu  í fremsta jaxli (svört, fyllt ör)

Hestar sem komast upp á að lyfta mélunum upp á jaxlana og bíta í mélin, eru í mikilli hættu að skemma í sér fremstu jaxlana og því miður má oft sjá merki þess. Glerungungurinn eyðist hratt við núning við harðann málminn og opnar leiðina fyrir tannsýkingu og tannpínu. Hinn mikli þrýstingur sem af þessu hlýst á tennurnurnar losar einnig smám saman um þær og leiðir til tannholdsbólgu.

Knapar bera ábyrgð á að stöðva þessa hegðun hjá hestum áður en varanlegt tjón hlýst af.

 

Úlfstennur

Úlfstennur eru litlar og ófullkomnar tennur fyrir framan fremstu jaxla í efri gómi. Þetta er hinn eiginlegi fremsti jaxl sem hefur tapað hlutverki sínu og er að hverfa þó enn komi hann fyrir hjá um 50% hrossa. Þær geta valdið hestum sem notaðir eru til reiðar miklum óþægindum þar sem mélin rekast í þær og setja á þær meiri þrýsting en rætur þeirra þola. 

Úlfstennur hafa stuttar rætur og enga burði til að þola þrýsting frá mélum sem þær gjarnan verða fyrir vegna staðsetningar sinnar. Tannholdsbólga og los á þessum tönnum geta valdið hestum miklum óþægindum í munni og komið í veg fyrir að þeir nái að sætta sig við mélin, auka m.a. hættuna á að hross fari að bíta í mélin. Því er ráðlegt að láta fjarlægja þessar tennur.

 

Aldurstengd vandamál

Ung hross

Tannskiptin geta skapað tímabundin vandamál í munni hestsins, gert honum erfitt að tyggja og þar með leitt til meltingavandamála og veikinda. Um það bil 15% unghrossa stríða við einhver vandamál vegna tannskipta sem vanalega batna að sjálfu sér. Tamningamenn og aðrir sem hafa umsjón með trippum í tannskiptum þurfa að þekkja líffræði tannskipta til að koma í veg fyrir að þau skapi vandamál.

   

Fullorðins-jaxlar hesta þroskast inni í kjálkabeinunum, undir/yfir mjólkur-jöxlunum fram að tannskiptum.

Hverskyns ótímabært los eða skemmdir á mjólkurtönnum geta leitt til röskunar á því viðkvæma ferli sem tannskiptin eru og leitt til ævilangra tannvandamála. Tannraspanir á mjólkurtönnum geta leitt af sér slika röskun.

 

Gömul hross

Með aldrinum styttast tennur hrossa og misssa að lokum festuna við kjálkabeinið. Eyddur glerungur veldur því að gömul hross eru lengi að tyggja. Varast ber að setja þrýsting á slíkar tennur, t.d. með tannröspun, því hætt er við að þær losni þá enn frekar og það auki á vandann.

Tennurnar eyðast með aldrinum.

 

Meðfæddir gallar

Yfirbit og undirbit jaxla

Bitgallar jaxla eru fremur algengir í hrossum. Þeir valda ójöfnu sliti þar sem hlutar fremstu og öftustu jaxla koma ekki í snertingu við aðra tönn þegar hesturinn tyggur. Þessir hlutar tannanna slitna ekki með sama hætti og þeir hlutar sem snerta aðra tönn sem leiðir til óeðliegra tannbrodda. Undirbit er algengast í íslenska hestinum.

 

Afleiðingar yfirbits og undirbits á jöxlum.

 

Yfirbit og undirbit framtanna

Venjulega er un að ræða tilfallandi vansköpun sem á sér stað á fósturstigi. 

 

Yfirbit framtanna                                Undirbit framtanna

 

Önnur vandamál í munni

Tannholdsbólga, fóðursöfnun í kinnum og brot á tönnum

Ekki er óalgengt að hestar greinist með sýkingar í munnholi sem geta verið af mismunandi orsökum og þróast í tannholdssýkingar. Fóðursöfnun í kinnum getur leitt af sér slíkar sýkingar en á sér vanalega aðrar osakir, s.s. tannrótarbólgu eða annað sem hindrar eðlilegar hreyfingar munnsins þegar hesturinn tyggur.

   

Brotnar tennur eru algeng orsök þess að sýkingar sýkingar ná sér á strik tannholi og beini.

 

Tannskemmdir og rótarbólga

Tannskemmdir eru vaxandi vandamál í hrossum. Orsakir þeirra eru ekki að fullu kunnar. Ef ekki tekst að meðhöndla slíkar skemmdir valda þær með tímanum sýkingu í rót og jafnvel aðlægum beinvef, eins og  hjá mönnum.

 

Æxli

 

Yfirleitt eru æxli í sem finnast í munni hesta góðkynja.

 

Tannskemmdir vegna afbrigðilegrar hegðunar

Tennur ropara   Ropari

Óeðlilegt atferli eins og þegar hestar ropa eða gleypa loft getur leitt af sér óeðlilegt slit á framtönnum sem er varanlegt tjón.

 

"Cushing" Efnaskiptasjúkdómur vegna röskunar á starfsemi nýrnahetta

 

Efnaskiptasjúkdómar geta valdið vandamálum í munni hesta, t.d. tannlosi.