Rei­mennska

Hestar voru ekki gerðir til að bera menn á baki sínu

Frjáls í náttúrunni hreyfir hesturinn sig óþvingað, eins og honum finnst best. Það sem hefur áhrif á hreyfingar hans er samspil við aðra hesta og þær landfræðilegu og veðurfarslegu aðstæður sem hann býr við. Í dag hafa margir hestar þar hlutverk að vera félagar og reiðhestar manna og hefur það mikil áhrif á líf þeirra og aðstæður. Við tamningu og þjálfun hesta er því afar mikilvægt að hafa í huga að hestar voru ekki skapaðir til að bera menn á baki sínu heldur er það hlutverk sem maðurinn hefur valið þeim. Um leið og maðurinn sest á bak hestsins þá raskar hann náttúrulegu jafnvægi hans og hreyfingum. Það er því afar mikilvægt að öll tamning og þjálfun hesta miði að því að hjálpa þeim að endurheimta og bæta jafnvægi sitt til að þeir geti enst vel og lengi í þjónustu sinni við manninn. Tamningin á að miða að því að kenna hestinum rétta og góða líkamsbeitingu og til þess að svo megi verða þarf knapinn sem sest á bak hestins að búa yfir ákveðinni grundvallarþekkingu um það hvernig á að meðhöndla og vinna með hann svo vel takist til.

Taumsamband

© Helga Thoroddsen

Jafnvægi er grundvallarforsenda  góðrar reiðmennsku

Til þess að geta riðið hestum vel þarf knapinn að læra að sitja á honum í góðu jafnvægi og án þess að nota tauminn. Með öðrum orðum, hann þarf að læra að vera góður farþegi sem reiðir sig ekki eingöngu á tauminn til þess að hafa stjórn á hestinum. Eftir því sem knapinn er í betra jafnvægi á hestinum minnkar þörfin á því að taka í tauminn eða nota hann í óhófi og þar með valda óþarfa álagi á munn hestsins sem er viðkvæmasti líkamshluti hans og því auðvelt að valda  þar skaða með því að nota ofnota taumábendingar og/eða rangan beislabúnað. Þegar hestinum er riðið hefur maðurinn áhrif á allan líkama hans, ekki bara munn og háls heldur framhluta, fætur, bak og afturhluta.

Ekki er hægt að fjalla um munn hesta, beisli og beislabúnað án tillits til þess hvernig nota á hestinn, þjálfa og ríða honum. Jafnframt hefur líkamsbygging og geðslag áhrif á tamningu og þjálfun og þar með val á beislabúnaði. Um þessi atriði þarf knapinn að vera meðvitaður þegar hann ákveður hvaða búnað hann hyggst nota. Það er því flókið samspil margra ólíkra þátta sem hefur áhrif á það hvernig hesturinn hreyfir sig þegar maðurinn er kominn á bak.

Áhrifaþættir á líkamsbeitingu hestins:

  • Líkamlegt og andlegt atgervi
  • Þjálfunarstig, tamning
  • Aldur
  • Færni knapans, jafnvægi og aðferðafræði
  • Búnaður, hnakkur og beisli
  • Aðstaða/aðstæður

Markmið með allri þjálfun á að vera að byggja upp sterkan, ganghreinan, liðugan og sáttan hest. Til að ná þessum markmiðum þarf knapinn að vera meðvitaður um að það getur tekið langan tíma að byggja upp líkamlegan og andlegan styrk til að hægt sé að ríða hestinum í hámarksafköstum og þá einungis í stuttan tíma í senn. Meginhluti  þjálfunnar hesta byggir yfirleitt á því að þjálfa grunnatriði sem eru forsenda þess að mikilla afkasta t.d. í ferðalögum, sýningum og keppni. Gott jafnvægi og rétt líkamsbeiting hests og knapa er grundvallarforsenda þess að byggja upp sterkan og heilbrigðan hest.