Bygging og virkni

Ólík hlutverk munnsins  

 Hesturinn er sérhæfður í að lifa af eingöngu á grasi og þarf að innbyrða mikið magn til að útvega sér næga orku. Þróun munnsins hefur miðað að því að gera átið sem öflugast en í því felst að bíta grasið, skilja út mögulega aðskotahluti og tyggja það. 

Við náttúrulegar aðstæður notar hesturinn 15-18 klukkustundir á sólarhring í að leita að grasi og éta það.

 

Hauskúpan

   

Munnur hestsins er í þremur hlutum sem hver hefur sitt hlutverk. Framtennurnar (1) bíta grasið af jörðinni. Í miðhlutanum, tannlausa bilinu (2), leitar tungan að hugsanlegum aðskotahlutum og skilur þá út áður en fóðrið er tuggið með jöxlunum í aftasta hluta munnsins (3).

 

Tannlausa bilið

  

Án méla                                                                          Með mélum

Tannlausa bilið, á milli framtanna og jaxla, skapar möguleika á að koma mélum fyrir í munni hesta.


Náttúrulegt hlutverk þessa líkamshluta er hins vegar að skilja aðskotahluti úr fóðrinu. Þess vegna er slímhúðin á þessu svæði ríkulega búin taugaendum og því sérlega næm enda hestinum lífsnauðsynlegt að verja bæði tennur og meltingarkerfið í heild sinni fyrir aðskotahlutum.


Munnholið er fullt af mjúkvef, tungu og gómfyllu og þar er því ekkert holrúm eða pláss fyrir mélin sem þurfa að “skapa sér pláss” með því að þrýsta á tunguna og breyta lögun hennar.


Allt þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar hestur er beislaður og einkum þegar hestur er vaninn við beisli í tamningu.

 

Tennur hestsins (teikning af jaxli í neðri gómi)  

Það sem fyrst og fremst aðskilur tennur manna og hesta er þróun tannrótarinnar. Rótin er fullþroskuð í mönnum um leið og tönnin er tekin í notkun, á meðan tannrætur hrossa eru afar stuttar í byrjun en stækka og þroskast framundir miðjan aldur þeirra. Tannkrónan eða glerungurinn í tönnum hrossa hefur hins vegar náð endanlegri stærð þegar tönnin er tekin í notkun þó mikill hluti hennar sé þá enn ofan í kjálkabeininu. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að engin frekari glerungsmyndun fer fram í tönnum hrossa eftir að eftir að þær hafa verið teknar í notkun.

Tennur hesta slitna við tyggingu og ganga upp úr tannbeininu í samræmi við það slit. Á meðan ræturnar eru enn að stækka fylla þær upp í holrúmið í beininu en seinna meir fyllist það af beinvef. Tennurnar taka úr því að styttast þar til þær eyðast að mestu og losna.

 

Mjólkurtennur og tannskipti

Þriggja vetra trippi hefur skipt út fyrstu framtönn (I1) beggja megin í munninum. Mjólkurtennur (I2 og I3) til hliðanna.

Fullorðinstönn að þroskast inni í kjálkabeini vel varin af mjólkurtönn.

 

Folöld og trippi hafa mjólkurtennur. Krónur þeirra eru svipaðar hinum varanlegu tönnum en rótin stutt og þroskast ekki áfram. Tannfelling og tanntaka varanlegtra tanna á sér stað á aldursbilinu tveggja til tveggja og hálfs árs upp að fjögurra til fimm vetra aldri. Við fimm vetra aldurinn er  töku varanlegra tanna lokið hjá hjá flestum hrossum, að undanskilinni vígtönninni (bitanum) sem stundum kemur ekki upp fyrr en við 7-8 vetra aldurinn. 

  

Afstaða tannanna í hauskúpunni

Fullorðin hross hafa 6 framtennur í hvorum gómi og rétt fyrir aftan þær er oft að finna vígtennur (bita). Vígtennurnar hafa ekki hlutverki að gegna við fæðunám og þær slitna ekki né ganga upp með sama hætti og aðrar tennur hestsins. Þær er síður að finna í hryssum.  Aftar í munninum eru 6 jaxlar í hvorri hlið á hvorum gómi. Þrír fremstu, forjaxlarnir, hafa mjólkurtennur sem undanfara en eru að öðru leyti sömu gerðar og hinir aftari sem koma upp sem varanlegar tennur. Á milli framtanna og jaxla er tannlausa bilið þar sem kjálkabeinin eru umlukin þunnri slímhúð. Allt að 50% hrossa hafa svokallaðar úlfstennur sem eru litlar tennur  fyrir framan fremstu jaxla. Þær hafa stuttar rætur og enga burði til að þola þrýsting frá mélum hjá hestum í reið. Tannholdsbólga og los á þessum tönnum getur valdið hestum miklum óþægindum í munni og komið í veg fyrir að þeir nái að sætta sig við mélin.

 

Munnhol, tunga og tennur

Efri gómur hrossa er áberandi víðari en neðri gómurinn sem gerir það að verkum að jaxlarnir standast ekki á að öllu leyti. Þessi afstaða jaxlanna og skástæður bitflötur tannanna sem af henni leiðir hefur þróast til að tryggja öfluga tyggingu. Hið sama á við um um hina skörpu kanta jaxlanna en stefna þeirra dregur úr hættunni á að slímhúð í kinnum og tungu skaðist við tygginguna.


Tungan er sterkur vöðvi sem hefur það megin hlutverk að flytja fóðrið til í munnholinu. Hún er klædd þykkri slímhúð en engu að síður ríkulega búin taugaendum og mjög næm. Gróp er á milli tungurótarinnar sem er föst við undirlagið og hinnar lausu tungu fremst í munnholinu.