Inngangur

Velferð hestsins er grundvöllur hestamennskunnar og þeirrar ánægju sem af henni hlýst. Til að hún megi þróast áfram á forsendum hestsins er þekking hestamanna á líffræði hestsins lykilatriði.

Markmið þessarar vefsíðu er að gera aðgengilegt fræðsluefni um munn og tennur hestsins, beislisbúnað og notkun hans. Á síðunni má einnig finna umfjöllun um atferli hesta og þjálfun sem stuðlar að velferð þeirra og á efnið á erindi til allra sem nota íslenska hestinn til reiðar.  

Skipulagt eftirlit með heilbrigði keppnishesta hefur verið á öllum helstu stórmótum á Íslandi frá árinu 2002. Eftirlitið beinist m.a. að munninum en fram hefur komið að  allt að 40% keppnishesta bera merki um áverka á þessu viðkvæma líkamssvæði. Við það ástand verður ekki unað.  

Munnsærindi í íslenskum keppnishrossum eru undantekningalítið þrýstingssár sem rekja má til beislisbúnaðar og/eða stöðugs þrýsting frá taumtaki. Vandamál tengd tönnum geta þó verið undirliggjandi orsök, t.d. úlfstennur, brotnar tennur og bitgallar. Oft má sjá skemmdir á tönnum hjá hestum sem bíta í mél og dæmi eru um hesta með tannpínu af þeim sökum.

Þessar niðurstöður heilbrigðisskoðana á keppnishestum koma heim og saman við nýlegar rannsóknir sem sýna að óheppilegur beislisbúnaður og/eða röng notkun hans, samfara skilningsleysi á líffræði munnsins, eru helstu skýringarnar á hversu mikið er um særindi í munni hesta. Tannskemmdir í hestum eru oft af sömu ástæðum. Misskilningur á eðli og gerð tanna leiðir iðulega af sér rangar meðhöndlanir sem jafnvel geta leitt til varanlegs heilsutjóns og komið niður á endingu hesta.

Í gegnum tíðina hefur margvíslegur búnaður verið þróaður og notaður við tamningar og þjálfun hesta í þeirri viðleitni að ná betra sambandi við hestinn og  stjórn á honum. Það er engin tilviljun að  sú stjórnun á sér stað að miklu leyti í gegnum munn hestsins enda er það líkamssvæði afar næmt og viðkvæmt. Oft er notaður beislisbúnaður sem ekki hentar íslenska hestinum sem skildi. Einkum á þetta við um val á beislismélum, lengd þeirra og þykkt en einnig um efnið eða efnin sem þau eru gerð úr. Þá geta reiðmúlar valdið langvarandi þrýstingi á slímhúð og leitt til særinda í munni. Knapar þurfa þeir að gera sér grein fyrir breytileikanum sem getur verið milli einstakra hesta og taka tillit til hans við val á beislisbúnaði. Slík þekking er sérstaklega mikilvæg við frumtamningar þegar í hlut eiga hross á afar viðkvæmu þroskaskeiði.  

Síðustu áratugi hefur mikil þróun orðið í reiðmennsku og þjálfun íslenskra hesta sem stuðlað hefur að bættri meðferð. Á sama tíma hafa kröfur um form og afköst aukist, einkum hjá hestum sem notaðir eru til keppni og sýninga og á það sjálfsagt þátt í hárri tíðni áverka í munni.

Út frá sjónarmiði dýravelferðar, og ekki síður til að eiginleikar hestsins fái notið sín sem best, er áríðandi að knapar átti sig betur á byggingu og virkni munns og tanna og áhrifum mismunandi méla og beislisbúnaðar á þessi líffæri og hestinn í heild sinni. Þannig má draga úr hættunni á notkun á óheppilegum búnaði, misbeitingu hans og fyrirbyggja særindi í munni.